„Meiri líkur á að ég vinni Strictly“

Paul Merson.
Paul Merson.

Paul Merson, fyrrverandi knattspyrnumaður og núverandi sparkspekingur hjá Sky Sports, gefur lítið fyrir ummæli Ange Postecoglou, knattspyrnustjóra Tottenham Hotspur, um að hann vinni alltaf til bikars á öðru tímabili sínu með þeim liðum sem Postecoglou stýrir.

„Ég vinn alltaf titla á mínu öðru ári hjá fé­lagi. Það breyt­ist ekk­ert.

Nú er ég bú­inn að segja þetta, og ég er ekki van­ur að sega eitt­hvað án þess að trúa því sjálfur," sagði Postecoglou við Sky Sports eftir 0:1-tap fyrir Arsenal í ensku úrvalsdeildinni í gær.

Merson, sem lék með Arsenal frá 1985 til 1997, tekur um þessar mundir þátt í raunveruleikaþáttunum Strictly Come Dancing, þar sem frægt fólk er parað saman við atvinnudansara og pörin keppa í dansi.

Hann er enginn atvinnudansari nema síður sé og sagði um ummæli Postecoglou:

„Ég kann vel við Ange en það eru meiri líkur á að ég vinni Strictly. Það eru líkurnar sem ég gef þeim á að vinna til bikars.“

Tottenham vann síðast enska deildabikarinn árið 2008.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert