Við getum ekki elt City og Arsenal

Enzo Maresca stjórnar sínum mönnum í Chelsea.
Enzo Maresca stjórnar sínum mönnum í Chelsea. AFP/Glyn Kirk

Chelsea hefur farið betur af stað í ensku úrvalsdeildinni í haust en á síðasta tímabili en knattspyrnustjórinn  Enzo Maresca vill halda sínum mönnum á jörðinni.

Chelsea er með 13 stig eftir fyrstu sex leikina og er í fjórða sæti deildarinnar, á eftir  Liverpool, Manchester City og Arsenal, en liðið tekur á móti Nottingham Forest á Stamford Bridge á sunnudaginn.'

Í heildina hefur Chelsea unnið sjö af fyrstu tíu leikjum sínum í öllum mótum og skorað í þeim 27 mörk.

„Ég á ekki von á því að við getum veitt Manchester City og Arsenal keppni um meistaratitilinn," sagði Maresca á fréttamannafundi í dag.

„Ég er á þeirri skoðun vegna þess að við erum ekki tilbúnir í það ennþá. Málið er að City hefur verið með sama knattspyrnustjórann í níu ár og Arsenal í fimm ár. Ef þú ætlar að slást um stærstu titlana þá þarftu slíkan tíma," sagði Maresca, 44 ára gamall Ítali sem tók við Chelsea í sumar eftir að hafa komið Leicester upp í úrvalsdeildina.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert