Heimtar frestun á leikjum á næsta tímabili

Pep Guardiola, knattspyrnustjóri Manchester City.
Pep Guardiola, knattspyrnustjóri Manchester City. AFP/Oli Scarff

Pep Guardiola, knattspyrnustjóri Manchester City, hefur sagt að félagið hafi beðið um að fyrstu leikjum félagsins í ensku úrvalsdeildinni á næsta tímabili yrði frestað en enska úrvalsdeildin hafi neitað þeirri beiðni.

Beiðnina lagði Manchester City fram vegna mikils leikjaálags fram á sumar en ný útfærsla af heimsmeistarakeppni félagsliða hefst eftir að tímabilunum í Evrópuboltanum lýkur næsta vor.

Úrslitaleikur heimsmeistarakeppni félagsliða verður spilaður 13. júlí 2025 í New Jersey í Bandaríkjunum sem er fjórum vikum áður en keppni í ensku úrvalsdeildinni á að hefjast.

Samkvæmt reglum ber félögum skylda til að gefa leikmönnum þriggja vikna frí frá síðasta leik áður en leikmenn eru boðaðir til æfinga.

„Enska úrvalsdeildin hefur hafnað beiðni okkar að fresta fyrstu tveimur leikjum okkar á næsta tímabili. Við sóttum um frestun til að leikmenn okkar fengu frí eftir heimsmeistarakeppni félagsliða en enska úrvalsdeildin sagði nei við okkur.“ sagði Guardiola.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka