Gleðifréttir fyrir United

Erik ten Hag knattspyrnustjóri og Leny Yoro.
Erik ten Hag knattspyrnustjóri og Leny Yoro. Ljósmynd/Manchester United

Franski knattspyrnumaðurinn Leny Yoro, miðvörðurinn ungi hjá Manchester United, er byrjaður að æfa með liðinu á ný eftir að hafa meiðst á undirbúningstímabilinu í sumar.

Yoro, sem er aðeins 18 ára gamall, meiddist á fæti og þurfti að gangast undir skurðaðgerð af þeim sökum og hefur því ekki enn spilað sinn fyrsta keppnisleik fyrir Man. United.

Hann var keyptur frá Lille á 52 milljónir punda, 9,3 milljarða íslenskra króna, og eru því miklar vonir bundnar við miðvörðinn hjá enska stórliðinu.

Þegar Yoro fór í aðgerð í ágúst var reiknað með þriggja mánaða fjarveru. Endurhæfingarferli hans hefur hins vegar gengið betur en Man. United mun ekki fara sér að neinu óðslega og því liggur ekki fyrir hvenær Yoro má vænta þess að spila sinn fyrsta leik.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert