Bakslag hjá sóknarmanni Manchester United

Mason Mount.
Mason Mount. AFP/Glyn Kirk

Mason Mount, leikmaður enska knattspyrnufélagsins Manchester United, verður lengur frá keppni vegna meiðsla en forráðamenn liðsins höfðu gert ráð fyrir.

Þetta tilkynnti Erik ten Hag, stjóri liðsins, á blaðamannafundi í gær en Mount, sem er 25 ára gamall, hefur verið frá keppni vegna meiðsla aftan í læri í rúmlega mánuð.

Óvíst er hvenær hann snýr aftur á völlinn en hann hefur misst af síðustu þremur leikjum United vegna meiðslanna. Hann var fjarri góðu gamni í fjóra mánuði á síðustu leiktíð vegna meiðsla á kálfa.

Hann gekk til liðs við United frá uppeldisfélagi sínu Chelsea sumarið 2023 en hefur aðeins náð að leika 25 leiki fyrir félagið í öllum keppnum þar sem hann hefur skorað eitt mark og lagt upp eitt.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert