Mikel Arteta, knattspyrnustjóri Arsenal, segist reyna að halda sig á mottunni þegar hann er á hliðarlínunni svo hann þurfi ekki að sjá fram á að vera úrskurðaður í leikbann.
Á fréttamannafundi í morgun var rifjað upp þegar hann missti stjórn á skapi sínu á hliðarlínunni í markalausu jafntefli gegn Newcastle United, mótherja helgarinnar.
„Á hlíðarlínunni er ég ekki kominn á þann stað að ég fari í hugleiðslu. Kannski ætti ég að gera það. Þegar þeir breyta reglunum um ákveðna hegðun þurfum við að aðlaga okkur að því og það hef ég reynt að gera.
Ég vil ekki missa af neinum leikjum. Ég get ekki lofað því að ég muni ekki hoppa hæð mína af kæti á hliðarlínunni ef við skorum. En til þessa hefur þetta gengið vel,“ sagði Arteta.
Newcastle fær Arsenal í heimsókn í hádegisleiknum í ensku úrvalsdeildinni á morgun. Hefst leikurinn klukkan 12.30.