Grétar Rafn Steinsson mun á næstunni láta af störfum hjá enska knattspyrnufélaginu Leeds United til þess að taka taka við nýju starfi innan bandaríska fjárfestahópsins 49ers Enterprises, eigenda Leeds.
Grétar Rafn tók við sem yfirmaður leikmannakaupa hjá Leeds sumarið 2023 eftir að hafa áður starfað hjá Tottenham Hotspur, Everton og Fleetwood Town á Englandi.
The Athletic greinir frá því að hjá 49ers Enterprises muni hann taka við starfi tæknilegs stjóra. Í starfinu felst að Grétar Rafn mun rannsaka breytingar innan knattspyrnunnar, tæknilegar framfarir og þróun leikmanna.
Þrátt fyrir að fara frá Leeds mun hann vinna að því að þróa áfram hugmyndir sem munu fyrst og fremst hagnast félaginu en einnig félögum sem fjárfestahópurinn gæti keypt í framtíðinni.
Grétar Rafn er þegar farinn að vinna að því að færa sig yfir í nýja starfið hjá 49ers Enterprises.