Loksins mættur aftur hjá United

Luke Shaw er byrjaður að æfa á ný.
Luke Shaw er byrjaður að æfa á ný. AFP/Adrian Dennis

Enski knattspyrnumaðurinn Luke Shaw, varnarmaður Manchester United, er byrjaður að æfa með liðinu að nýju eftir að hafa ekkert leikið með því það sem af er tímabili.

Shaw meiddist á kálfa í ágúst og var reiknað því að hann myndi snúa aftur eftir landsleikjahléið í október en þáverandi stjóri Man. United, Erik ten Hag, sagði þá bakslag hafa komið í endurhæfingu vinstri bakvarðarins.

Hann hefur raunar ekki spilað fyrir Man. United síðan í febrúar á þessu ári þegar Shaw meiddist illa aftan í læri. Hann var valinn í lokahóp Englands fyrir EM 2024, missti af riðlakeppninni en tók þátt í þremur síðustu leikjum liðsins á mótinu.

Leny Yoro, miðvörðurinn ungi sem var keyptur á 52 milljónir punda frá Lille í sumar, er þá byrjaður að æfa með liðinu eftir að hafa fótbrotnað á undirbúningstímabilinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert