Fyrirliði United kom farþega til bjargar

Bruno Fernandes er fyrirliði Manchester United.
Bruno Fernandes er fyrirliði Manchester United. AFP/Paul Ellis

Portúgalski knattspyrnumaðurinn Bruno Fernandes, fyrirliði Manchester United, kom farþega til aðstoðar í flugi til heimalandsins í gær.

Daily Mail greinir frá því að farþegi hafi veikst í flugi EasyJet frá Lundúnum til Lissabon og að virtist sem væri að líða yfir hann.

Fernandes var í grenndinni og kallaði eftir aðstoð flugliða. Þeir voru fljótir að hlaupa til og hjálpaði Fernandes farþeganum, karlmanni, að setjast í laust sæti aftarlega í flugvélinni.

Sóttist ekki eftir athygli

„Hann var hjá þeim og gekk úr skugga um að það væri í lagi með farþegann. Þetta hafa verið fimm eða tíu mínútur og svo labbaði hann aftur að sæti sínu án nokkurs yfirlætis.

Hann var ekki að leitast eftir því að fá neina athygli,“ sagði Susanna Lawson, farþegi í fluginu og vitni að atvikinu, í samtali við Daily Mail.

Fernandes hélt til Lissabon ásamt liðsfélaga sínum hjá Man. United Diogo Dalot þar sem þeir eiga fyrir höndum tvo leiki með Portúgal í A-deild Þjóðadeildar Evrópu, gegn Póllandi og Króatíu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka