Lengsta taphrina Man City í 18 ár

Það gengur hvorki né rekur hjá Manchester City þessa dagana.
Það gengur hvorki né rekur hjá Manchester City þessa dagana. AFP/Justin Tallis

Það gengur hvorki né rekur hjá Enlandsmeisturum Manchester City þessa dagana en liðið tapaði sínum fimmta leik í röð í öllum keppnum í gær þegar liðið fékk slæma útreið á heimavelli gegn Tottenham.

Leiknum lauk með 4:0 sigri Tottenham sem er stærsta tap Manchester City á heimavelli í stjórnartíð Pep Guardiola.

Liðið hafði ekki tapað 90 mínútna leik á heimavelli sínum, Etihad, í tvö ár en það tímabil taldi 52 leiki.

Eins og áður sagði hefur liðið tapað fimm leikjum í röð í öllum keppnum sem er lengsta taphrina á þjálfaraferli Guardiola, þá er þetta líka lengsta taphrina félagsins í átján ár.

Manchester City tapaði sex leikjum í röð frá mars og fram í apríl árið 2006 og þá gerðist það einnig tímabilið 2000-2001 en þá féll félagið niður í næstefstu deild.

Liðið mætir Feyenoord í Meistaradeild Evrópu í miðri viku og er það kjörið tækifæri fyrir lærisveina Guardiola til að snúa við blaðinu áður en að liðið mætir toppliði Liverpool um næstu helgi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert