Frábær endurkomusigur Liverpool

Mohamed Salah fagnar fyrra marki sínu í dag.
Mohamed Salah fagnar fyrra marki sínu í dag. AFP/Justin Tallis

Liverpool sigraði Southampton 3:2 í hörkuleik í ensku úrvalsdeildinni á St. Mary's Stadium í dag. Mohamed Salah gerði sigurmark Liverpool úr vítaspyrnu á 83. mínútu leiksins. Þessi úrslit þýða að Liverpool er komið með átta stiga forystu á Manchester City á toppi deildarinnar en liðið er með 31 stig eftir 12 umferðir. Southampton er aftur á móti áfram á botninum en liðið er með aðeins fjögur stig eftir 12 leiki.

Leikmenn Liverpool byrjuðu af krafti í dag en þrátt fyrir það voru það heimamenn sem áttu fyrsta skotið á markið í þessum leik en á 5. mínútu átti Mateus Fernandes skot sem Kelleher varði örugglega. Í kjölfarið fengu gestirnir nokkur færi en það besta var klárlega færið sem Mohamed Salah fékk á 21. mínútu leiksins en þá átti Cody Gakpo fína sendingu fyrir markið og á fjarstönginni var Salah aleinn en Alex MacCarthy kom vel út á móti honum og varði skotið. Stuttu síðar fengu Dominik Szoboszlai og Cody Gakpo fín skotfæri en Alex McCarthy varði bæði skotin mjög vel.

Adam Armstrong kemur boltanum framhjá Caoimhin Kelleher í marki Liverpool.
Adam Armstrong kemur boltanum framhjá Caoimhin Kelleher í marki Liverpool. AFP/Justin Tallis

Það var svo loksins á 30. mínútu leiksins að leikmenn Liverpool náðu að koma boltanum framhjá Alex McCarthy og í netið. Þar var á ferðinni Dominik Szoboszlai en hann átti gott skot í stöngina og inn en hann fékk boltann frá Flynn Downes, varnarmanni Southampton, eftir mikinn klaufagang í vörn liðsins. Það munaði reyndar ansi litlu að Flynn Downes jafnaði metin strax í næstu sókn en Caoimhin Kelleher varði vel frá honum. En jöfnunarmarkið kom á 42. mínútu en þá fékk Southampton vítaspyrnu þegar Andy Robertson braut á Adam Armstrong. Reyndar varði Kelleher vítið frá Adam Armstrong en Armstrong náði að fylgja vel á eftir og setja boltann í netið.

Þetta byrjaði frekar rólega í seinni hálfleik en Liverpool var mun meira með boltann án þess þó að skapa sér alvöru marktækifæri. Aftur á móti voru heimamenn hættulegir í skyndisóknum sínum og það var einmitt úr seinni slíkri sem þeir skoruðu úr og komust yfir í leiknum. Eftir hornspyrnu Liverpool á 56. mínútu leiksins brunuðu leikmenn Southampton upp völlinn og Tyler Dibling átti frábæra sendingu á Adam Armstrong sem setti boltann á Mateus Fernandes og hann lagði boltann hreinlega framhjá Kelleher í marki Liverpool og kom Southampton yfir 2:1. Eftir markið vöknuðu stuðningsmenn Southampton heldur betur til lífsins og létu í sér heyra en heimamenn náðu bara að halda þessari forystu í níu mínútur en á 65. mínútu leiksins átti Ryan Gravenberch frábæra sendingu inn fyrir vörn Southampton og þar kom Mohamed Salah á ferðinni, tók eina snertingu framhjá Alex McCarthy, og setti boltann í netið og jafnaði metin. Staðan orðin 2:2.

Liðsmenn Liverpool fagna sigurmarki Mohamed Salah í dag.
Liðsmenn Liverpool fagna sigurmarki Mohamed Salah í dag. AFP/Justin Tallis

Eftir jöfnunarmarkið héldu gestirnir áfram að herja á leikmenn Southampton en meðal annars átti Luis Diaz fínan skalla á markið á 68. mínútu leiksins sem Alex McCarthy varði vel. Þrátt fyrir nokkur önnur fín færi var Liverpool ekki að finna markið sem þeir þurftu til að fá öll stigin þrjú en það breyttist allt á 83. mínútu leiksins þegar Liverpool fékk vítaspyrnu. Þá átti Mohamed Salah sendingu fyrir markið en boltinn fór í hendina á Yukinari Sugawara og dæmd vítaspyrna. Salah setti boltann á punktinn og negldi boltanum í markið og kom Liverpool í 3:2 og þetta mark reyndist vera sigurmarkið í þessum skemmtilega leik á St. Mary’s Stadium.

Liverpool er á toppnum í ensku úrvalsdeildinni með 31 stig eftir 12 leiki en Manchester City er í öðru sætinu með 23 stig. Þessi tvö lið mætast einmitt næsta sunnudag á Anfield. Southampton er á botninum í ensku úrvalsdeildinni en liðið er með fjögur stig eftir 12 leiki en liðið hefur aðeins unnið einn leik í deildinni til þessa, gert eitt jafntefli en tapað tíu leikjum. Næsti leikur Southampton í deildinni er gegn Brighton á útivelli en leikurinn fer fram næsta föstudagskvöld.

Lýsing uppfærist sjálfkrafa

Allar lýsingar í beinni

Aðrir virkir leikir

Ipswich 0:1 Man. United opna
2. mín. Marcus Rashford (Man. United) skorar 0:1 - Draumabyrjun United undir Amorim! Frábært samspil hjá Bruno og Diallo en sá síðarnefndi er öskufljótur og gefur boltann fyrir á Rashford sem potar honum í netið.

Leiklýsing

Southampton 2:3 Liverpool opna loka
90. mín. Dominik Szoboszlai (Liverpool) á skot sem er varið +3 - Skot í varnarmann
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert