City er samt okkar mesti keppinautur

Mohamed Salah á æfingu Liverpool í dag.
Mohamed Salah á æfingu Liverpool í dag. AFP/Paul Ellis

Mohamed Salah segir að þrátt  fyrir afleitt gengi Manchester City að undanförnu sé liðið áfram skæðasti keppinautur Liverpool um enska meistaratitilinn í knattspyrnu.

City hefur tapað fimm leikjum í röð, þremur þeirra í úrvalsdeildinni, og það er versti kafli félagsins frá því Pep Guardiola tók þar við sem knattspyrnustjóri, og reyndar mun lengur en það.

Liverpool er með átta stiga forskot á City á toppi deildarinnar en meistararnir eru þó í öðru sætinu þrátt fyrir taphrinuna, og liðin mætast á Anfield næsta sunnudag.

„Já, þeir eru það að sjálfsögðu. Manchester City er Manchester City. Liðið gengur í gegnum erfiðan kafla akkúrat núna en mun ná sér á strik á ný," sagði Salah við Sky Sports.

Þeir eru með virkilega góðan þjálfara, virkilega góða leikmenn, og vonandi tekst okkur að sigra þá," sagði Salah, sem hefur verið nær óstöðvandi með Liverpool það sem af er tímabilinu.

Salah og félagar eiga tvo sannkallaða stórleiki á næstu dögum því annað kvöld taka þeir á móti Evrópumeisturum Real Madrid í Meistaradeildinni á Anfield.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert