Mikið áfall fyrir Tottenham

Guglielmo Vicario fagnar eftir frækinn sigur Tottenham á Manchester City.
Guglielmo Vicario fagnar eftir frækinn sigur Tottenham á Manchester City. AFP/Paul Ellis

Ítalski knattspyrnumaðurinn Guglielmo Vicario, markvörður Tottenham Hotspur, er ökklabrotinn og gekkst af þeim sökum undir skurðaðgerð í gær.

Enska félagið tilkynnti á samfélagsmiðlum í gærkvöldi að Vicario hafi brotnað á hægri ökkla og hafi því þurft að fara undir hnífinn.

Ekki er tekið fram hversu lengi ítalski markvörðurinn má eiga von á að vera frá keppni en þegar um ökklabrot er að ræða eru leikmenn venjulega frá í um tvo mánuði eða lengur.

Vicario er aðalmarkvörður Tottenham og einn af lykilmönnum liðsins. Síðast átti hann stórleik í 4:0-sigri á Manchester City í ensku úrvalsdeildinni á laugardag og því er um mikið áfall að ræða fyrir Tottenham.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert