Við erum ekki í titilbaráttu

Enzo Maresca ræðir við Enzo Fernandez í sigurleik Chelsea gegn …
Enzo Maresca ræðir við Enzo Fernandez í sigurleik Chelsea gegn Aston Villa á sunnudaginn. AFP/Glyn Kirk

Enzo Maresca, knattspyrnustjóri Chelsea, segir að lið sitt sé ekki í titilbaráttu á þessu keppnistímabili þrátt fyrir góða byrjun í ensku úrvalsdeildinni.

Chelsea er með 25 stig í þriðja sæti deildarinnar, níu stigum á eftir Liverpool en með jafnmörg stig og Arsenal sem er í öðru sæti.

Þetta er mikil breyting frá síðasta tímabili þegar Chelsea var lengst af um miðja deild en náði Evrópusæti með góðum endaspretti.

Maresca telur að sitt lið muni berjast um titlana á næstu árum en ekki í vetur.

„Já, ég er viss um það. Arsenal hefur tvö undanfarin ár verið á hælunum á Manchester City og við höfum verið langt á eftir City. Það væri skemmtileg pressa á mér og leikmönnunum að vera í titilbaráttu, við værum til í það, en við erum ekki komnir þangað. Arsenal er þar ásamt Liverpool og City en ekki við. Vonandi er samt ekki langt í okkur,“ sagði Maresca á fréttamannafundi í dag en Chelsea á útileik gegn botnliði Southampton annað kvöld.

„Ég sagði við eigendur Chelsea þegar ég ræddi við þá um að koma hingað að Chelsea sé eitt þeirra félaga sem geta verið á toppi enska fótboltans næstu árin, vegna þess hversu ungur og góður leikmannahópur félagsins er,“ sagði Ítalinn sem kom til Lundúnafélagsins frá Leicester í sumar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert