Eiður Smári Guðjohnsen og Margrét Lára Viðarsdóttir voru gestir Harðar Magnússonar í Vellinum á Símanum sport í gærkvöldi en þau ræddu 16. umferð ensku úrvalsdeildar karla í knattspyrnu.
Meðal umræðuefna var framkoma Spánverjans Marc Cucurella bakvarðar Chelsea en hann lét reka sig af velli eftir sigur Chelsea og Brentford.
Þá var hann á gulu og fór að rífast við Kevin Schade sóknarmann Brentford við hliðin á dómaranum sem gaf honum annað gult spjald og þar með rautt.
Cucurella skoraði sitt fyrsta úrvalsdeildarmark fyrr í leiknum en hann hefur verið mikið í sviðsljósinu undanfarið því í þar síðasta leik gegn Tottenham rann hann tvisvar og í bæði skiptin skoruðu Tottenham.
Hann endaði á því að breyta um takkaskó og Chelsea vann loks leikinn.
„Hann byrjaði á því að stela fyrirsögnum á upphafsmínútum í síðasta leik og þarna gerði hann það í lok leiks.
Það var svo mikið að gerast í kringum hann. Það byrja bara einhver fíflalæti.
Maður skilur ekki alveg, þú ert búinn að skora þitt fyrsta mark og ættir að vera glaður en það var einhver ofboðsleg reiði í honum,“ sagði Eiður Smári meðal annars en umræðuna í heild sinni má sjá í spilaranum hér að ofan.