Enski knattspyrnumaðurinn Bukayo Saka, kantmaður Arsenal, verður frá keppni í margar vikur vegna meiðsla.
Saka fór meiddur af velli í 5:1-stórsigri Arsenal á Crystal Palace í ensku úrvalsdeildinni um helgina eftir að hafa rifið vöðva aftan í læri.
„Þetta lítur ekki vel út. Hann verður frá í margar vikur,“ sagði Mikel Arteta, knattspyrnustjóri Arsenal, á fréttamannafundi í dag.
Enski miðillinn The Times greinir frá því að Saka megi eiga von á því að vera frá í fjórar til sex vikur og snúi því væntanlega ekki aftur á völlinn fyrr en í febrúar á næsta ári.
„Svona er þetta. Hann er meiddur og við getum ekki breytt því. Við ætlum að nota tímann til þess að hjálpa honum. Það voru eflaust einhverjar leiðir til þess að fyrirbyggja þessi meiðsli.“