Rashford ósáttur við forráðamenn United

Marcus Rashford.
Marcus Rashford. AFP/Oli Scarff

Enski knattspyrnumaðurinn Marcus Rashford, sóknarmaður Manchester United, er ósáttur við að forsvarsmenn félagsins hafi kannað áhuga annarra félaga á honum án þess að láta sig vita.

Staðarblaðið Manchester Evening News greinir frá því að Man. United hafi látið félög vita af því að Rashford sé falur að honum forspurðum.

Man. United var reiðubúið að selja Rashford í sumar en þá bárust engin tilboð í Englendinginn, sem er með 325.000 pund í vikulaun hjá uppeldisfélaginu.

Ekki hefur verið tekin formleg ákvörðun um að hann verði seldur en The Guardian greindi frá því í síðustu viku að búið væri að setja Rashford á sölulista.

Manchester Evening News tekur í sama streng og segir hann falan í janúar. Rashford gæti hafa spilað sinn síðasta leik fyrir Man. United þar sem hann hefur ekki verið í leikmannahópnum í síðustu þremur leikjum og liðið á aðeins tvo leiki eftir á árinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert