Slæmt gengi Englandsmeistara Manchester City virðist engan enda ætla að taka en liðið tapaði fyrir Aston Villa, 2:1, í ensku úrvalsdeildinni á laugardag. Hefur City því aðeins unnið einn leik af síðustu tólf.
Pep Guardiola knattspyrnustjóri City er skiljanlega ósáttur við gang mála og hann hefur bætt við æfingu á jóladag vegna gengisins.
„Venjulega fáum við frí á jóladag og það hefur verið mjög huggulegt. Nú æfum við hins vegar á jóladag og spilum við Everton annan í jólum,“ sagði Kyle Walker bakvörður City á blaðamannafundi í dag.