Curtis Jones spilaði sinn hundraðasta leik í úrvalsdeild karla í knattspyrnu í gær en vissi ekki af því fyrir leik.
Curtis er 23 ára miðjumaður og spilaði sinn fyrsta leik í úrvalsdeildinni með Liverpool árið 2019 þegar liðið var undir stjórn Jurgen Klopp.
Klopp hætti sem knattspyrnustjóri Liverpool eftir tímabilið 2023/24 en sendi hamingjuóskir á Jones eftir 3:1-sigur Liverpool gegn Leicester City.
„Ég sendi fjölskyldunni vanalega skilaboð og sá þá skilaboð frá honum sem voru „til hamingju með 100 leiki“ og ég skildi ekkert hvað hann var að tala um. Svo athugaði ég þetta og ég er stoltur,“ sagði Jones.
„Það var hann sem setti liðið saman sem við erum með núna, grunnurinn var til staðar og Arne Slot heldur uppteknum hætti,“ sagði Jones um Klopp.