Átta leikmenn Manchester City voru meiddir eða veikir þegar liðið gerði 1:1-jafntefli við Everton í ensku úrvalsdeild karla í knattspyrnu.
Englandsmeisturum City hefur gengið illa undanfarið og er 14 stigum á eftir toppliði Liverpool og þeir hafa aðeins unnið tvo af sex leikjum í Meistaradeild Evrópu.
„Leikmannaglugginn í janúar er erfiður. Ég held að leikmenn séu líka sammála um að við þurfum nýja leikmenn en svo koma nýir leikmenn í þeirra stöðu og þá verða þeir ósáttir.
Við höfum verið í vandræðum með meiðsli og þetta er vandamál en ég vil ekki ná í leikmann til að laga ástandið núna heldur fyrir næstu þrjú, fjögur ár sem er ekki auðvelt,“ sagði Guardiola á blaðamannafundi eftir leikinn.