Plymouth, sem Wayne Rooney stýrir, tapaði tólfta leik liðsins á tímabilinu í gær þegar liðið steinlá gegn Coventry, 4:0, í næstefstu deild í knattspyrnu á Englandi í gær.
Plymouth hefur ekki unnið leik á útivelli á þessu tímabili og er í 24. og síðasta sæti deildarinnar með 18 stig eftir 22 leiki.
„Fyrstu fimm mínúturnar voru ekki nógu góðar. Mörkin sem þeir skora voru alveg eins og mörk sem við fórum yfir á myndbandsfundi fyrir leikinn og við vissum hvaðan ógnirnar koma en það var ekki kveikt á okkur,“ sagði Rooney eftir tapið í gær.
Plymouth hefur tapað tíu leikjum á útivelli á tímabilinu og gert tvö jafntefli en ekki unnið leik nema á heimavelli.
„Við erum eins og tvö lið. Eitt lið á heimavelli og annað á útivelli. Við erum að gera allt til þess að reyna að bæta þetta,“ sagði Rooney.
Íslenski landsliðsmaðurinn Guðlaugur Victor Pálsson er leikmaður Plymouth en kom ekki við sögu í tapinu í gær.