Ruben Amorim, knattspyrnustjóri Manchester United, viðurkennir að Manchester United er í fallbaráttu eftir 2:0-tap liðsins gegn Newcastle í gærkvöldi.
„Það er mjög augljóst. Þetta eru mjög erfiðir tímar í sögu Manchester United og við þurfum að tala um það opinberlega,“ sagði Amorim aðspurður hvort United væri í fallbaráttu.
Manchester United situr í 14. sæti deildarinnar með 22 stig, sjö stigum fyrir ofan Ipswich í fallsæti.
„Þegar svona stundir koma, sérstaklega í stórum klúbbum, þá er mjög erfitt að snúa hlutunum við. Sérstaklega þegar maður hefur ekki mikinn tíma til að þjálfa grunnatriðin og takast á við erfiðu augnablikin.
Þannig að við þurfum að viðurkenna stöðu okkar. Eins og þú sérð í deildinni þá geta allir sigrað alla. Við verðum að taka þátt og einbeita okkur að því að bjarga sæti okkar,“ sagði Amorim.