Liverpool hafnaði 2,6 milljarða tilboði

Ben Doak í leik með Liverpool á síðasta tímabili.
Ben Doak í leik með Liverpool á síðasta tímabili. AFP/Charly Triballeau

Enska knattspyrnufélagið Liverpool hefur hafnað 15 milljóna punda tilboði Crystal Palace í skoska táninginn Ben Doak.

15 milljón pund jafngilda 2,6 milljörðum íslenskra króna en samkvæmt The Times vill Liverpool nær 30 milljónum punda, 5,2 milljörðum króna.

Doak er 19 ára gamall kantmaður sem leikur með Middlesbrough að láni frá Liverpool og hefur staðið afar vel í ensku B-deildinni á yfirstandandi tímabili.

Alls hefur hann leikið 20 leiki og skorað tvö mörk ásamt því að leggja upp fimm mörk fyrir Middlesbrough á tímabilinu.

Doak á að baki tíu leiki í öllum keppnum fyrir Liverpool og hefur þrátt fyrir ungan aldur þegar leikið sex A-landsleiki fyrir Skotland.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert