Dramatískur seinni hálfleikur á Anfield

Amad Diallo skoraði jöfnunarmark United.
Amad Diallo skoraði jöfnunarmark United. AFP/Darren Staples

Topplið Liverpool gerði 2:2-jafntefli við Manchester United á Anfield í 20. umferð í ensku úrvalsdeild karla í knattspyrnu.

Liverpool er með 46 stig á toppi deildarinnar og United er í 13. sæti með helmingi færri stig.

Ryan Gravenberch fékk fyrsta færi leiksins en það kom eftir stundarfjórðung. Cody Gakpo sendi boltann í hlaupaleið Gravenberch sem skaut rétt fram hjá. Stuttu seinna fékk Liverpool annað færi eftir frábæra sendingu Mohamed Salah á Alexis Mac Allister. Sendingin fór yfir Mac Allister sem tók boltann í fyrstu snertingu og þrumaði honum á markið en Amadou Onana varði vel.

Gravenberch lét svo vaða af löngu færi á 29. mínútu sem fór rétt fram hjá og eftir það fóru United-menn aðeins í gang. Liverpool hélt boltanum vel en United-menn sóttu hratt en gekk illa beint fyrir framan markið. Þeir sóttu upp vinstra megin og áttu fínar fyrirgjafir en Amad Diallo átti lélegan skalla í burtu frá Liverpool-markinu og Ibrahima Konate, sem var að spila sinn fyrsta leik frá því í nóvember, átti góða hreinsun.

Rasmus Hojlund komst einn á móti marki undir lok fyrri hálfleiks en Alisson varði vel af stuttu færi og staðan var 0:0 í hálfleik.

United byrjaði seinni hálfleik af miklum krafti og komst yfir á 52. mínútu. Trent Alexander-Arnold sendi lélega sendingu á miðjuna í uppspili og Bruno Fernandes keyrði í átt að markinu. Hann dró þrjá varnarmenn til sín en sendi svo á Lisandro Martínez sem slapp í gegn og skoraði.

Lisandro Martinez að fagna fyrsta marki leiksins.
Lisandro Martinez að fagna fyrsta marki leiksins. AFP/Darren Staples

Cody Gakpo jafnaði metin fyrir Liverpool stuttu síðar eftir flotta sendingu frá Alexis Mac Allister. Gakpo var með flott hlaup inn í teig, var yfirvegaður á boltann og beið á meðan Mattijs de Ligt renndi sér fram hjá honum og þrumaði boltanum svo í þaknetið.

Á 70. mínútu fékk Liverpool vítaspyrnu eftir að boltinn fór beint í höndina á De Ligt inn í teig.

Mohamed Salah fór á punktinn og setti hann fram hjá Onana sem valdi rétt horn en náði ekki að stoppa boltann.

Mohamed Salah að fagna markinu sem kom Liverpool 2:1 yfir.
Mohamed Salah að fagna markinu sem kom Liverpool 2:1 yfir. AFP/Darren Staples

Á 80. mínútu jafnaði Amad Diallo metin fyrir United í 2:2, gegn gangi leiksins eftir flotta fyrirgjöf frá Alejandro Garnacho.

Á lokamínútu leiksins fékk United dauðafæri eftir aukaspyrnu. Liverpool-menn náðu að hreinsa en United vann boltann strax til baka og sótti hratt. Joshua Zirkzee sendi boltann á miðvörðinn Harry Maguire, sem var hátt uppi á vellinum eftir fasta leikatriðið, hann var með mikið af plássi inn í teig en þrumaði boltanum yfir markið í fyrstu snertingu og leikurinn endaði 2:2.

Lýsing uppfærist sjálfkrafa

Allar lýsingar í beinni

Liverpool 2:2 Man. United opna loka
90. mín. Hörkufæri hjá United en þeir ná ekki að skora og Liverpool sækir hratt.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert