Arsenal er það lið í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu sem hefur fengið flest spjöld fyrir að tefja í leikjum sínum á þessu keppnistímabili.
Undanfarið hefur langur tími sem fer í föst leikatriði hjá Arsenal vakið nokkra athygli og liðið hefur m.a. fengið á sig gult spjald fyrir að vera lengi að taka hornspyrnu.
Alls hafa leikmenn Arsenal níu sinnum fengið gula spjaldið fyrir að tefja í leikjum sínum í deildinni, samkvæmt tölfræðiveitunni Opta.
Bournemouth kemur næst með sjö gul spjöld fyrir tafir og síðan Chelsea, Everton, Fulham, Ipswich, Newcastle og Nottingham Forest með sex hvert.
Leicester er eina lið deildarinnar sem hefur aldrei fengið gult spjald fyrir að tefja og Southampton og Liverpool aðeins einu sinni. Þar eru á ferð tvö neðstu lið deildarinnar og toppliðið.