Chelsea vill fá enska landsliðsmiðvörðinn Marc Guéhi aftur frá Crystal Palace, tæpum fjórum árum eftir að hafa selt hann þangað.
Sky Sports skýrir frá þessu og segir að Chelsea þurfi að finna varnarmann í stað Wesley Fofana sem líklega spili ekki meira á þessu tímabili.
Chelsea seldi Guéhi til Palace sumarið 2021 fyrir 18 milljónir punda en þá hafði hann verið hjá félaginu frá sjö ára aldri, hafði aldrei fengið tækifæri í deildarleik með liðinu og spilað sem lánsmaður með Swansea í B-deildinni. Ljóst er að Palace vill fá háa upphæð fyrir hann og því gæti niðurstaðan orðið sú að Chelsea myndi í staðinn kalla Trevoh Chalobah aftur heim úr láni hjá Palace.
Guéhi er 24 ára gamall og þykir einn af bestu miðvörðum úrvalsdeildarinnar. Hann hefur fest sig í sessi í enska landsliðinu og spilað 22 landsleiki á tæplega þremur árum.