Enska knattspyrnufélagið Tottenham hefur fengið keppnisleyfi fyrir sinn nýjasta leikmann, tékkneska markvörðinn Antonin Kinský.
Hann verður þar með gjaldgengur með liðinu þegar það mætir Liverpool á heimavelli á miðvikudagskvöldið en það er fyrri leikur liðanna í undanúrslitum enska deildabikarsins.
Tottenham hefur verið í vandræðum vegna meiðsla, m.a. hjá markvörðum sínum, en Brandon Austin lék sinn fyrsta leik í marki Lundúnaliðsins þegar það mætti Newcastle á laugardaginn. Þá voru bæði Guglielmo Vicario og Fraser Forster fjarri góðu gamni vegna meiðsla.
Kinský er 21 árs gamall og á að baki eitt og hálft ár í efstu deild í Tékklandi með Slavia Prag og Pardubice.