Leikur áfram með Lundúnaliðinu

Son Heung-min hefur verið Tottenham mikilvægur um árabil.
Son Heung-min hefur verið Tottenham mikilvægur um árabil. AFP/Glyn Kirk

Enska knattspyrnufélagið Tottenham Hotspur hefur framlengt samning sinn við suðurkóreska sóknarmanninn Son Heung-min.

Hann er þar með samningsbundinn félaginu til sumarsins 2026 en samningur hans, sem var með ákvæði um árs framlengingu, átti að renna út eftir þetta tímabil. 

Son, sem er 32 ára gamall, leikur nú sitt tíunda tímabil með Tottenham en hann kom til félagsins frá Leverkusen í Þýskalandi árið 2015. Hann hefur verið í stóru hlutverki um árabil og skorað 125 mörk í 320 leikjum með félaginu í úrvalsdeildinni og samtals 169 mörk í 431 mótsleik fyrir Lundúnafélagið.

Þá hefur Son verið landsliðsfyrirliði Suður-Kóreu undanfarin ár og skorað tíu mörk fyrir landsliðið á árinu 2024, fleiri en nokkru sinni fyrr, en hann er næstmarkahæsti leikmaðurinn í sögu landsliðsins með 51 mark í 131 landsleik.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert