Annað áfallið á nokkrum dögum

Enes Ünal fagnar eftir að hafa tryggt Bournemouth stig gegn …
Enes Ünal fagnar eftir að hafa tryggt Bournemouth stig gegn West Ham í desember. AFP/Adrian Dennis

Bournemouth, sem hefur komið gríðarlega á óvart í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu í vetur, hefur orðið fyrir öðru áfalli sínu á nokkrum dögum.

Brasilíski framherjinn Evanilson er úr leik næstu mánuði eftir að hafa ristarbrotnað í leik liðsins gegn Everton um síðustu helgi.

Nú hefur Tyrkinn Enes Ünal, félagi hans í framlínu Bournemouth, líka helst úr lestinni en hann sleit krossband í hné á æfingu og spilar ekki meira á þessu keppnistímabili.

Ünal hefur leikið 17 af 20 leikjum Bournemouth í deildinni í vetur og skoraði í tveimur leikjum í röð í desember, í bæði skiptin gríðarlega mikilvæg mörk á lokamínútunum gegn West Ham og Ipswich.

Tímabilið til þessa er það besta í sögu Bournemouth sem er í sjöunda sæti deildarinnar, þremur stigum frá Meistaradeildarsæti. Besti árangur liðsins í sögunni er 9. sætið árið 2017.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert