Enska knattspyrnufélagið West Ham mun ráða Graham Potter sem eftirmann Julen Lopetegui sem var rekinn fyrr í dag.
The Guardian greinir frá því að Potter hafi samþykkt tveggja og hálfs árs samning forráðamanna West Ham.
Mun liðið æfa undir stjórn Englendingsins í fyrsta skipti á morgun og hann verður á hliðarlínunni er West Ham mætir Aston Villa í bikarnum á föstudag.
Potter stýrði síðast Chelsea en var rekinn í apríl 2023. Þar á undan stýrði hann Brighton við góðan orðstír, eftir sérlega góðan árangur með Östersund í Svíþjóð.
Félagið vildi fyrst um sinn aðeins bjóða Potter samning út tímabilið en eftir viðræður var samþykkt að veita honum lengri samning.
West Ham er í 14. sæti deildarinnar með 23 stig eftir 20 leiki.