Forráðamenn enska knattspyrnufélagsins Everton hafa vikið stjóranum Sean Dyche frá störfum, nokkrum klukkutímum áður en liðið mætir C-deildarliði Peterborough í enska bikarnum í kvöld.
Leighton Baines, fyrrverandi leikmaður liðsins og núverandi þjálfari U18 ára liðs félagsins, og fyrirliðinn Seamus Coleman stýra liðinu í kvöld og þar til nýr stjóri er fundinn.
Dyche var í tæp tvö ár hjá Everton og snerist tími hans hjá félaginu fremst um að forða liðinu frá falli niður í B-deildina. Liðið er sem stendur í 16. sæti ensku úrvalsdeildarinnar, einu stigi fyrir ofan fallsæti.
Everton hefur gengið bölvanlega að vinna leiki undanfarnar vikur og vann Dyche aðeins einn af síðustu ellefu leikjum sínum hjá Liverpool-liðinu.