Graham Potter hefur formlega verið ráðinn knattspyrnustjóri karlaliðs West Ham United. Skrifaði hann undir tveggja og hálfs árs samning.
Spánverjinn Julen Lopetegui var rekinn í gær og voru Hamrarnir fljótir að finna arftaka hans enda var félagið þegar búið að ræða við Potter um möguleikann á að hann tæki við.
Enski stjórinn hefur verið án starfs í að verða tvö ár, eða síðan hann var rekinn frá Chelsea í apríl árið 2023.
„Ég er mjög spenntur, þetta er dagur sem markast af stolti yfir því að vera þjálfari hjá þessu magnaða félagi sem er með mikla hefð og sögu, miklar væntingar og þetta er mikil áskorun.
Ég er spenntur, þetta eru eins og jólin fyrir fullorðna! Ég svaf ekki sérlega vel í nótt vegna spennunnar en ég hlakka til að hitta leikmennina og stuðningsmennina og hefjast handa,“ sagði Potter á fréttamannafundi í morgun.