„Sem betur fer aðeins heilahristingur“

Pedro Porro var fljótur að koma Rodrigo Bentancur til aðstoðar …
Pedro Porro var fljótur að koma Rodrigo Bentancur til aðstoðar áður en læknateymið veitti honum aðhlynningu. AFP/Justin Tallis

Ange Postecoglou, knattspyrnustjóri Tottenham Hotspur, segir Rodrigo Bentancur hafa fengið heilahristing í leik liðsins gegn Liverpool í undanúrslitum enska deildabikarsins á miðvikudagskvöld.

Bentancur hneig niður á sjöttu mínútu og hlaut í kjölfarið aðhlynningu, fékk súrefni og var svo borinn af velli um átta mínútum síðar.

„Sem betur fer eru góðar fréttir af honum. Hann var auðvitað á sjúkrahúsi og var skoðaður þar í bak og fyrir til þess að ganga úr skugga um að allt væri í lagi. Það er allt í góðu.

Hann er kominn aftur heim og það er í lagi með hann, honum líður vel. Við fylgjum reglunum núna, hann verður ekki með í tvær vikur til þess að ganga úr skugga um að hann sé í lagi.

Sem betur fer lítur þetta út fyrir að hafa verið heilahristingur en ekkert meira en það. Þetta var ógnvekjandi. Pedro [Porro] var fyrstur á vettvang og vissi að um neyðarástand væri að ræða.

Mér fannst starfsfólkið höndla þetta vel og læknateymið gerði það líka. Sem betur fer er allt í lagi,“ sagði Postecoglou í myndskeiði sem Tottenham birti á samfélagsmiðlum sínum í dag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert