Þýski knattspyrnumaðurinn Niclas Füllkrug leikur ekki íþrótt sína næstu þrjá mánuði vegna meiðsla aftan í læri sem hann hlaut í leik West Ham gegn Aston Villa í enska bikarnum á föstudagskvöld.
Hann þurfti að fara af velli eftir aðeins fimmtán mínútur vegna meiðslanna og West Ham greindi frá alvarleika meiðslanna í frétt á heimasíðu félagsins í dag.
Füllkrug hefur verið mikið frá vegna meiðsla á leiktíðinni en West Ham keypti þýska landsliðsmanninn frá Dortmund á 27 milljónir punda fyrir leiktíðina. Hann hefur skorað tvö mörk í níu leikjum á tímabilinu.