Hótuðu að myrða ófætt barn þeirra

Sophia og Kai Haverts á góðri stundu.
Sophia og Kai Haverts á góðri stundu. Ljósmynd/@Sophiaemelia

Sophia Haverts, eiginkona þýska knattspyrnumannsins Kai Havertz, fékk afar ógeðfelld skilaboð á samfélagsmiðlinum Instagram eftir að Arsenal, lið Havertz, féll úr leik í 32-liða úrslitum ensku bikarkeppninnar í gær.

Arsenal tapaði fyrir Manchester United í vítakeppni í Lundúnum í gær en staðan að loknum venjulegum leiktíma var 1:1. 

United hafði svo betur í vítakeppninni, 5:3, en Havertz var sá eini í liði Arsenal sem Altay Bayindir í marki United varði frá.

„Við erum betri en þetta“

„Ég ætla að koma heim til þín og myrða barnið, ég er ekki að grínast, bíddu bara,“ voru ein skilaboðin sem Sophia fékk en hún er ófrísk af þeirra fyrsta barni. „Ég vona að þú missir fóstrið,“ sendi annar til hennar.

„Ég vona að fólk skammist sín. Ég veit ekki einu sinni hvað ég á að segja og vonandi getur fólk sýnt aðeins meiri virðingu. Við erum betri en þetta,“ skrifaði Sophia í færslu sem hún birti með skilaboðunum á Instagram.

Atvikið er nú til skoðunar innan félagsins og leggur félagið mikið kapp á að finna þá sem sendu skilaboðin að því er fram kemur í frétt The Standard um málið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert