Manchester United skaut á Arteta

Bruno Fernandes kemur Manchester United yfir með glæsilegu skoti í …
Bruno Fernandes kemur Manchester United yfir með glæsilegu skoti í gær. AFP/Ian Kington

Enska knattspyrnufélagið Manchester United skaut á Mikel Arteta, knattspyrnustjóra Arsenal, á samfélagsmiðlum eftir sigur liðsins í vítaspyrnukeppni í 3. umferð ensku bikarkeppninnar í gær.

Fyrirliðinn Bruno Fernandes kom gestunum frá Manchester yfir með stórglæsilegu skoti snemma í fyrri hálfleik áður en Gabriel jafnaði metin fyrir Arsenal stuttu eftir að Diogo Dalot, vængbakvörður Man. United, fékk sitt annað gula spjald og þar með rautt.

Man. United knúði fram vítaspyrnukeppni einum færri og vann 5:3 í henni.

Arsenal tapaði 0:2 fyrir Newcastle United í undanúrslitum enska deildabikarsins í síðustu viku. Eftir leikinn sagði Arteta að flugið á boltanum sem notast væri við í deildabikarnum væri öðruvísi en liðið ætti að venjast og að því hafi mörg skot farið yfir mark Newcastle.

„Þessi bolti flýgur mikið,“ var skrifað á X-aðgangi Man. United með ljósmynd af Fernandes að skora glæsilegt mark sitt.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert