Yfirgaf völlinn á sjúkrabörum

Gabriel Jesus yfirgaf völlinn í gær á börum.
Gabriel Jesus yfirgaf völlinn í gær á börum. AFP/Ian Kington

Brasilíski knattspyrnumaðurinn Gabriel Jesus var borinn af velli þegar Arsenal féll úr leik gegn Manchester United í 32-liða úrslitum ensku bikarkeppninnar í Lundúnum í gær.

United fagnaði sigri eftir vítakeppni, 5:4, en staðan að loknum venjulega leiktíma var 1:1 þar sem Bruno Fernandes kom United yfir á 52. mínútu en Gabriel jafnaði metin fyrir Arsenal á 63. mínútu.

Meiddist í fyrri hálfleik

Leikurinn var hádramatískur því á 61. mínútu fékk Diogo Dalot að líta sitt annað gula spjald og þar með rautt í liði United og þá varði Altay Bayindir, markvörður United, vítaspyrnu Norðmannsins Martins Ödegaards á 72. mínútu.

Jesus meiddist í fyrri hálfleik á 40. mínútu eftir samstuð við Bruno Fernandes en hann hélt um hnéð á sér þegar hann lá í grasinu. 

Óvíst er hversu lengi framherjinn verður frá keppni en þeir Bukayo Saka, Ethan Nwaneri, Takehiro Tomiyasu og Ben White eru allir meiddir hjá Arsenal.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert