Það bendir allt til þess að Gabriel Jesus, framherji enska knattspyrnufélagsins Arsenal, sé með slitið krossband.
Það er The Athletic sem greinir frá þessu en Jesus fór meiddur af velli þegar Arsenal féll úr leik í 32-liða úrslitum ensku bikarkeppninnar eftir tap gegn Manchester United í vítakeppni í Lundúnum um helgina.
Jesus fór meiddur af velli á 40. mínútu og hélt um hnéð á sér eftir samstuð við Bruno Fernandes en hann var borinn af velli.
Jesus hefur skorað þrjú mörk í 17 leikjum með Arsenal í ensku úrvalsdeildinni á tímabilinu en alls á hann að baki 96 leiki fyrir félagið þar sem hann hefur skorað 26 mörk.
Mikel Arteta, stjóri Arsenal, íhugar nú að styrkja hópinn hjá sér fyrir seinni hluta tímabilsins en þeir Bukayo Saka, Ethan Nwaneri, Takehiro Tomiyasu og Ben White eru allir frá keppni vegna meiðsla hjá Arsenal.