Liverpool hafnaði risatilboði í framherjann

Darwin Núnez.
Darwin Núnez. AFP/Justin Tallis

Forráðamenn enska knattspyrnufélagsins Liverpool höfnuðu í gær risatilboði í úrúgvæska framherjann Darwin Núnez.

Það er Anfield Watch sem greinir frá þessu en tilboðið, sem kom frá Al-Hilal í Sádi-Arabíu, hljóðaði upp á 70 milljónir punda. Það samsvarar rúmlega 12 milljörðum íslenskra króna.

Núnez, sem er 25 ára gamall, gekk til liðs við Liverpool frá Benfica sumarið 2022 fyrir 85 milljónir punda og er hann dýrasti leikmaður í sögu félagsins.

Hann hefur hins vegar aldrei náð sér almennilega á strik fyrir framan mark andstæðinganna og hefur aðeins skorað 37 mörk í 122 leikjum fyrir félagið.

Forráðamenn Liverpool eru sagðir opnir fyrir því að selja framherjann í janúar en félagið vill fá í kringum 85 milljónir punda fyrir hann.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert