Forráðamenn enska knattspyrnufélagsins Chelsea hafa kallað Trevoh Chalobah til baka úr láni frá Crystal Palace.
Það er The Athletic sem greinir frá þessu en Chalobah, sem er 25 ára gamall miðvörður, hefur leikið mjög vel með Palace á yfirstandandi keppnistímabili.
Miðvörðurinn hefur leikið 12 leiki með Crystal Palace í ensku úrvalsdeildinni og skorað í þeim þrjú mörk en Palace situr í 15. sæti úrvalsdeildarinnar með 21 stig á meðan Chelsea er í 4. sætinu með 37 stig.
Chalobah er uppalinn hjá Chelsea en hefur einnig leikið með Ipswich, Huddersfield og Lorient á láni á ferlinum.