Úsbekinn Abdukodir Khusanov er að ganga til liðs við Englandsmeistara Manchester City.
Það er ítalski félagaskiptasérfræðingurinn Fabrizio Romano sem greinir frá þessu en Khusanov, sem er tvítugur, mun gangast undir læknisskoðun hjá enska félaginu á föstudaginn kemur.
Varnarmaðurinn hefur leikið með Lens í frönsku 1. deildinni frá árinu 2023 en hann er uppalinn hjá Bunyodkor í heimalandinu, Asíuríkinu Úsbekistan sem var áður eitt af lýðveldum Sovétríkjanna.
Brasilíski varnarmaðurinn Vitor Reis er einnig að ganga liðs við City og Pep Guardiola er því að fá tvo unga varnarmenn til félagsins á stuttum tíma.
City hefur hikstað mikið á yfirstandandi tímabili en liðið er í sjötta sæti ensku úrvalsdeildarinnar með 35 stig.