Gefur titilvörnina upp á bátinn

Phil Foden fagnar öðru marki sínu í jafnteflinu í gærkvöldi.
Phil Foden fagnar öðru marki sínu í jafnteflinu í gærkvöldi. AFP/Ben Stansall

Enski knattspyrnumaðurinn Phil Foden segir það morgunljóst að lið hans Manchester City muni ekki verja Englandsmeistaratitil sinn í ár eftir jafntefli gegn Brentford, 2:2, í ensku úrvalsdeildinni í gærkvöldi.

Foden kom Man. City í 2:0 áður en Brentford kom til baka og jafnaði metin áður en yfir lauk. Man. City er í sjötta sæti deildarinnar með 35 stig, tólf stigum á eftir toppliði Liverpool sem á einnig leik til góða.

„Titillinn? Já, hann er ekki lengur innan seilingar. Það er búið spil, við vitum það. Við erum ekki heimskir. Við þurfum að stefna að efstu fjórum sætunum.

Það er næsta markmið núna og svo auðvitað Meistaradeild Evrópu. Þannig að það er ekki eins og tímabilið sé búið. En við verðum að vera raunsæir, ekki satt? Frammistaðan hefur ekki verið nægilega góð til þess að vera á toppnum.

Topp fjórir er markmiðið okkar núna og svo getum við séð hvar við stöndum í baráttunni um hina bikarana. Við getum ekki dvalið of lengi við þetta. Við þurfum að stefna á topp fjóra núna og rétta úr kútnum,“ sagði Foden við fréttamenn eftir leikinn í gær.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert