Einn sá eftirsóttasti á leið til Arsenal?

Viktor Gyökeres.
Viktor Gyökeres. AFP/Patricia De Melo

Sænski knattspyrnumaðurinn Viktor Gyökeres er á óskalista forráðamanna enska úrvalsdeildarfélagsins Arsenal.

Það er franski miðillinn L'Equipe sem greinir frá þessu en Gyökeres, sem er 26 ára gamall, er samningsbundinn Sporting í portúgölsku 1. deildinni.

Framherjinn gekk til liðs við Sporting frá Coventry, sumarið 2023, og hefur skorað 21 mark í 17 leikjum í deildinni á tímabilinu. Þá hefur hann skorað fimm mörk í sex leikjum í Meistaradeildinni.

Alls á hann að baki 80 leiki fyrir félagið í öllum keppnum þar sem hann hefur skorað 75 mörk og lagt upp 21 til viðbótar. Hann hefur verið orðaður við öll stærstu lið Evrópu undanfarna mánuði.

Arsenal er í framherjaleit eftir að Gabriel Jesus sleit krossband á dögunum en Gyökeres kostar í kringum 70 milljónir punda.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert