Andlát: Denis Law

Denis Law er fallinn frá, 84 ára að aldri.
Denis Law er fallinn frá, 84 ára að aldri.

Denis Law, leikmaður Manchester United í ellefu ár, landsliðsmaður Skotlands í sextán ár og besti knattspyrnumaður Evrópu árið 1964 er látinn, 84 ára að aldri.

Law lék með Huddersfield, Manchester City og Tórínó á Ítalíu áður en hann gekk til liðs við Manchester United árið 1962.

Þar varð hann ein af goðsögnum félagsins, skoraði 237 mörk í 404 leikjum í ensku deildinni, varð meistari með liðinu 1965 og 1967, bikarmeistari 1963, og í Evrópumeistaraliði United árið 1968 þegar liðið vann Benfica 4:1 í úrslitaleik á Wembley. Law missti þó af sjálfum úrslitaleiknum vegna meiðsla.

Hann er þriðji markahæsti leikmaðurinn í sögu Manchester United, á eftir Wayne Rooney og Bobby Charlton.

Árið 1964 fékk hann sjálfan Gullboltann, Ballon d'Or, sem besti knattspyrnumaður Evrópu, í kjöri France Football.

Hjá United myndaði hann hið fræga tríó Best-Charlton-Law og hann er nú síðastur þremenninganna snjöllu til að falla frá. Law sat við dánarbeð George Best þegar hann lést árið 2005.

Law lauk síðan ferlinum með Manchester City tímabilið 1973-1974 og örlögin höguðu því þannig að í síðasta leik tímabilsins skoraði hann sigurmark City gegn United með hælspyrnu, 1:0. United var þar með fallið úr deildinni en hefði reyndar ekki náð að bjarga sér þó markið frá Law hefði ekki komið til.

Það var reyndar ekki lokaleikurinn því Law lék tvo leiki í byrjun næsta tímabils en lagði skóna á hilluna í ágúst 1974.

Denis Law skoraði 30 mörk í 55 landsleikjum fyrir Skotland en hann og Kenny Dalglish deila markameti skoska landsliðsins því Dalglish skoraði einnig 30 mörk.

Law fékk alls kyns heiðurmerki, orður og titla og styttur voru reistar af honum í fæðingarborginni Aberdeen, sem og við Old Trafford, heimavöll Manchester United.

Law greindist með alzheimer-sjúkdóminn árið 2021.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert