Arsenal er í öðru sæti í ensku úrvalsdeild karla í knattspyrnu, fjórum stigum á eftir toppliði Liverpool. Leandro Trossard, leikmaður Arsenal, segir að liðið þurfi að vera fullkomið til að vinna titilinn.
„Liðið þarf að vera fullkomið. Síðustu fimm tímabil hefur verið hörð toppbarátta og litlu munað á liðunum. Allir eru að bæta sig, ekki bara efstu liðin, og það er meiri samkeppni.
Þú verður að vera upp á þitt besta í öllum leikjum. Það er erfitt en við þurfum að hafa trú og vera við sjálfir því þá náum við árangri,“ sagði Trossard við Sky Sports.
Liverpool hefur gert jafntefli í fyrstu tveimur leikjum liðsins á árinu og Arsenal gert eitt jafntefli og unnið einn leik.
Arsenal-menn hafa verið öflugir í föstum leikatriðum á tímabilinu og mikið hefur verið rætt um það.
„Það er partur af okkar leik og við erum mjög góðir í föstum leikatriðum. Við viljum vera bestir í öllu, þar á meðal föstum leikatriðum. Þetta er stór partur af okkar leik en ekki eini.“