Chelsea ætlar að freista þess af fullum þunga að krækja í argentínska kantmanninn Alejandro Garnacho frá Manchester United.
Enskir fjölmiðlar skýra frá þessu í dag en fyrr í mánuðinum kom fram að Chelsea hefði mikinn áhuga á leikmanninum.
Manchester United mun hafa hafnað nýju 50 milljón punda tilboði í hann frá Napoli á Ítalíu og þar með er Chelsea talið líklegast til að krækja í kappann, svo framarlega sem United er tilbúið til að selja. Napoli er sagt vera farið að beina sjónum sínum annað eftir að hafa verið hafnað í tvígang af Manchester United.