Wood þrjú ár í viðbót í skóginum

Chris Wood fagnar einu af fjórtán mörkum sínum í úrvalsdeildinni …
Chris Wood fagnar einu af fjórtán mörkum sínum í úrvalsdeildinni í vetur. AFP/Paul Ellis

Nýsjálenski knattspyrnumaðurinn Chris Wood sem hefur farið á kostum með Nottingham Forest í ensku úrvalsdeildinni í vetur hefur skrifað undir nýjan samning við félagið til ársins 2027.

Wood er 33 ára og hefur marga fjöruna sopið á löngum ferli en í vetur hefur allt gengið honum í haginn og hann er fjórði markahæsti leikmaður ensku úrvalsdeildarinnar með 14 mörk, um leið og Forest hefur komið gríðarlega á óvart og er í þriðja sæti deildarinnar.

Wood hefur nú skorað 29 mörk í 53 leikjum fyrir félagið í úrvalsdeildinni síðan hann kom þangað frá Newcastle í ársbyrjun 2023.

Áður lék hann með Newcastle og Burnley í úrvalsdeildinni, með Leeds og Ipswich í B-deildinni, með Leicester og WBA í báðum deildum og svo í B- og C-deildunum með Millwall, Bristol City, Birmingham, Brighton og Barnsley en Wood hefur spilað á Englandi í 17 ár.

Þá er Wood markahæsti leikmaður nýsjálenska landsliðsins frá upphafi, og sá næstleikjahæsti, með 41 mark í 80 landsleikjum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert