Martínez tryggði United sigur

Lisandro Martínez fagnar marki sínu í kvöld.
Lisandro Martínez fagnar marki sínu í kvöld. AFP/Glyn Kirk

Manchester United gerði góða ferð til Lundúna og lagði þar Fulham að velli, 1:0, í 23. umferð ensku úrvalsdeildarinnar í knattspyrnu karla á Craven Cottage í kvöld. Lisandro Martínez skoraði sigurmark gestanna.

Man. United vann sömuleiðis fyrri leik liðanna á Old Trafford 1:0 í upphafsleik úrvalsdeildarinnar.

Man. United fór með sigrinum upp í 12. sæti og er nú með 29 stig. Fulham er áfram í tíunda sæti með 33 stig.

Fátt markvert gerðist í fyrri hálfleik. Alex Iwobi, ógnaði tvívegis með skotum rétt innan vítateigs en bæði skotin fóru beint á Andre Onana í marki Man. United, sem varði þau bæði án mikilla vandræða.

Matthijs de Ligt átti einu marktilraun Man. United í fyrri hálfleik en þá fór laus skalli hans eftir fyrirgjöf Bruno Fernandes úr aukaspyrnu frá hægri beint á Bernd Leno í marki Fulham.

Staðan var því markalaus í leikhléi.

Raúl Jiménez skýtur að marki eftir að hafa verið dæmdur …
Raúl Jiménez skýtur að marki eftir að hafa verið dæmdur rangstæður í kvöld. Lisandro Martínez andar léttar. AFP/Glyn Kirk

Argentínumaðurinn skildi á milli

Eftir tæplega klukkutíma leik átti fyrirliðinn Bruno Fernandes góða tilraun beint úr aukaspyrnu en skot hans vinstra megin við vítateiginn fór undir varnarvegginn og í utanvert hliðarnetið.

Stundarfjórðungi fyrir leikslok fékk varamaðurinn Adama Traoré gott færi utarlega vinstra megin í vítateignum eftir sendingu Emile Smith Rowe. Traoré tók skotið en það flaug yfir samskeytin.

Stuttu síðar, á 78. mínútu, skoraði Argentínumaðurinn Martínez svo sigurmark Man. United. Boltinn barst þá til hans fyrir utan vítateig, Martínez lét vaða, boltinn fór af Sasa Lukic og breytti þannig töluvert um stefnu, Leno varði boltann en í þverslána og inn.

Einni mínútu fyrir leikslok komst Joachim Andersen nálægt því að jafna metin fyrir Fulham. Varamaðurinn Andreas Pereira tók þá hornspyrnu frá vinstri, Andersen náði hörkuskalla sem stefndi í netið en varamaðurinn Toby Collyer gerði afar vel í að skalla frá á marklínu.

Annar varamaður, Rodrigo Muniz, var sömuleiðis nálægt því að jafna metin þegar boltinn féll fyrir hann við markteiginn á fjórðu mínútu uppbótartíma en skot Muniz fór hátt yfir markið.

United náði hins vegar að halda út og vann sterkan útisigur.

Lýsing uppfærist sjálfkrafa

Allar lýsingar í beinni

Fulham 0:1 Man. United opna loka
90. mín. Að minnsta kosti sex mínútum verður bætt við í uppbótartíma.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert