„Þessi drengur er viðrini“

Denis Law var markaskorari af Guðs náð.
Denis Law var markaskorari af Guðs náð. AFP

„Þessi drengur er viðrini. Ég hef aldrei séð neinn ólíklegri til afreka á velli. Veikbyggður, álappalegur og með hnausþykk gleraugu, sagði Andy Beattie, knattspyrnustjóri Huddersfield Town, eftir að hann hafði verið kynntur fyrir 14 ára skoskum unglingi sem var til reynslu hjá félaginu árið 1955. Sá hét Denis Law og átti, þvert á þetta viðmót, eftir að verða einn fremsti sóknarmaður sinnar kynslóðar á Bretlandseyjum.

Law lést á dögunum, 84 ára að aldri.

Enda samdi Huddersfield við piltinn og hann hlaut eldskírn sína með liðinu aðeins 16 ára í B-deildinni. Þá hafði hann gengist undir aðgerð til að bæta sjónina sem færði Law aukið sjálfstraust. Hann lék í fjögur tímabil með Huddersfield, lengst af undir stjórn Bills Shanklys sem seinna átti eftir að gera Liverpool að stórveldi. Tveimur árum eftir frumraunina í Englandi var hann orðinn skoskur landsliðsmaður – og skoraði strax í fyrsta leik. Alls urðu landsliðsmörkin 30 í 55 leikjum, sem er enn landsmet sem hann deilir með Kenny Dalglish, og 11 í aðeins sjö leikjum almanaksárið 1963.

Law lék sem innherji hjá Huddersfield og þó hann skoraði sín mörk var hann ekki þessi dæmigerði markahrókur á þeim tíma. Hann steig á hinn bóginn stórt skref í þá átt eftir að Manchester City festi kaup á honum, 1959. Hann lék eitt heilt tímabil á Maine Road í efstu deild og skoraði 25 mörk í 50 leikjum í öllum keppnum.

Gerði stutt stopp á Ítalíu

Eftir rúmt ár hjá City lá leiðin til Torino á Ítalíu, þar sem Law var veturinn 1961-62. Honum gekk ekki illa á vellinum en átti vont með að laga sig að lífinu á Ítalíu.

Þá knúði Manchester United dyra en Sir Matt Busby var að byggja upp nýtt lið eftir að flugslysið í München þurrkaði það gamla nánast út á einu bretti. Law rauk strax upp úr rásblokkunum á Old Trafford og varð helsta markalind Rauðu djöflanna svo árum skipti. Mest gerði hann 46 mörk veturinn 1963-64 og 39 mörk tímabilið á eftir. Hann myndaði eitt frægasta þríeyki sparksögunnar hjá United ásamt Englendingnum Bobby Charlton og Norður-Íranum George Best. Nöfn þeirra eru álíka samofin í hugum fólks og Athos, Porthos og Aramis eða Rip, Rap og Rup. Hin heilaga þrenning í Leikhúsi draumanna.

Charlton tók á móti Law á fyrstu æfingunni og lýsti ánægju sinni yfir því að hann væri kominn til félagsins. „Þá brosti hann þessu breiða, óræða brosi sem átti eftir að verða svo kunnuglegt öll þessi ár. Það var eins og lunginn af galdrinum og árunni sem var yfir gamla United-liðinu hefði verið endurvakinn í einni andrá,“ sagði Charlton.

Kóngurinn á Old Trafford

Áhangendur United drógu Law snemma inn að innstu hjartarótum og hann naut gríðarlegrar lýðhylli meðan hann lék með liðinu, eins og viðurnefni hans gefur glöggt til kynna, Kóngurinn á Old Trafford. Það hefur dugað fram á þennan dag.

Law varð í tvígang enskur meistari með United, 1965 og 1967, og bikarmeistari 1963. Hann var hins vegar svo óheppinn að vera meiddur þegar lið hans lagði Benfica í frægum úrslitaleik í Evrópukeppni meistaraliða 1968.

Grein þessa í heild sinni má lesa í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins. 

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert