Enski knattspyrnumaðurinn Joe Willock, leikmaður Newcastle United, varð fyrir grófu kynþáttaníði eftir tap liðsins gegn Fulham, 2:1, í ensku úrvalsdeildinni í gær.
Willock birti skjáskot af ógeðfelldum skilaboðum sem hann fékk á Instagram eftir leikinn en hann hefur áður fengið slík skilaboð í gegnum sama miðil.
Newcastle hefur tilkynnt atvikið til lögreglu sem er með það til rannsóknar en dæmi eru fyrir að þeir sem beita kynþáttaníði á samfélagsmiðlum fái fangelsisdóma.
„Félagið hefur tilkynnt atvikið til Meta, eiganda Instagram, og hvetur alla samfélagsmiðla til að gera hvað þeir geta til að útrýma svona hegðun,“ segir m.a. í yfirlýsingu Newcastle.